06 september 2014

Lambeyrardalur


Það er dálítið skemmtilegur slóði sem hægt er að aka í Eskifirði. Hann liggur frá Bankabrekku og upp í Lambeyrardal sem er einhvers konar skál ofan við bæinn. 
Þar uppfrá er eitt af þremur vatnsbólum fyrir Eskifjörð. Ég skutlaðist þetta á hjólinu, rígmontinn, en ástæða til þess er svo sem ekki mikil því þangað upp segist einn íbúi Eskifjarðar hafa farið á Subaru Impreza bifreið sinni.
Þó ég hafi trölla trú á Subaru bílum yfirleitt þá trú ég ekki þessari frásögn hans.
En ég verð eiginlega að fara aftur upp því ég gleymdi að trakka leiðina með Wikiloc eða My Tracks öppunum í símanum mínum, og er þó með bæði til staðar.

En hér eru nokkrar myndir úr ferðinni.

 Hér sést yfir Eskifjörð.

 Séð út Eskifjörð og út á Reyðarfjörð, Hólmaborg og Vattarnes.

 Hér er svo vatnsbólið í Lambeyrardal.

 Svartafjall.

 Vatnsskúr :-)

 Hólmatindur og sólin í gosmistrinu ættuðu frá Holuhrauni.

Panorama yfir Eskifjörð.



Og eitt vídeó frá fossi einum í Ljósá.



23 ágúst 2014

Staðarskarð og Stuðlaheiði (Brosaskarð)

Jú, ég fór ferð í dag. Alveg hina frábæru ferð á hjólinu auðvitað.



Ég fór um Vattarnes, upp í Staðarskarð norðan frá og niður að sunnan verður.
Nú, ég var kominn upp í Skarðið, þá var ekki neitt annað í boði en að klifra upp á Hrútafell. Þaðan er virkilega gott útsýni yfir Reyðarfjörð, Eskifjörð og Fáskrúðsfjörð.


 Ein panoramamynd hér frá leiðinni upp í Staðarskarð.


 Tindarnir tveir fyrir miðri mynd eru í Krossanesfjallgarði og heita Hesthaus og Snæfugl. Lengst til hægri (úti á enda) er Sauðatindur.
Sagan segir að þýsk tveggja hreyfla herflugvél hafi brotlent á Valahjalla, undir Snæfugli árið 1940.
Meira má lesa um þetta hér.














Uppi í Staðarskarði er gestabókardós, eða geymsluhólf fyrir gestabók. Auðvitað hripaði ég eitthvað í hana, en þetta finnst mér bráðsniðugt, að hafa gestabækur til að kvitta fyrir komuna :-)














Næst var komið að því að kíkja á þennan sérkennilega kofa.














Hvaða tilgangi þetta gegnir hef ég ekki höggmynd um en það er ljóst að í hopnum hefur verið rafmagn. Því held ég fram því að rafstrengur liggur frá raflínu, sem sést glitta í á myndinni, að þessum kofa.

Útsýni frá Hrútafelli yfir Fáskrúðsfjörð hér að neðan. Grænnýpa er ysti hóll á nesinu. Sandfell er lengst til hægri á myndinni.
Ég fann mig knúinn til að ganga á Hrútafell, sem mér fannst töluvert erfitt því bratt er þangað upp. Ekki er akfært þangað og alveg tilvalið að skokka þarna uppeftir og virða fyrir sér firðina.
Móður og másandi, með blóðbragði í munni, gekk (já, ég var löngu hættur að skokka, þetta var svo bratt) ég upp á fellið. Mikið óskaplega var ég stoltur af mér þegar ég var alveg að komast upp. En stoltinu neyddist ég til að kingja á seinustu metrunum upp á Hrútafell því þar mætti ég bóndanum Baldri á Vattarnesi. Hann er þónokkuð mörgum árum eldri en ég og blés ekki úr nös, en þá hafði hann skokkað þarna upp eftir við annan mann, og hund, til að líta eftir sauðum sínum. Ég er sem sagt alls ekki í nógu góðu formi. Það er greinilegt.















 Þessu næst ók ég, auðvitað niður úr skarðinu, en sem leið lá til Búða. Búðir er þéttbílið í Fáskrúðsfirði. En svo áfram og inn í Stuðlaheiðardal, innst í Fáskrúðsfirði. Þar blasti þetta útsýni við. Þarna er ég staddur í Brosaskarði. Þar sést norður í Fagradal, meðal annars.














 Útsýni niður í Fagradal.















Þetta er gamall rafmagnsstaur en línan lá þarna fram af og niður í spennuvirkið á Stuðlum. Nú hefur línan verið færð en meðan hún lá fram af klettinum þar sem þessi staur stendur enn, sem minjagripur, þá var haftið á milli hans og næsta fyrir neðan það lengsta á landinu.















Hvaða bergtegund er þetta?















Hér er séð niður í Stuðlaheiðardal.















Séð niður í Fáskrúðsfjörð, neðst úr Stuðlaheiðardal.


Hér sést í rafmagnsstaurinn á brúninni. Það er ekkert auðvelt að sjá hann á ekki stærri mynd en þetta en hann stendur hægra megin við hólinn á miðri myndinni.

Fleiri myndir er hægt að sjá með því að smella hér.


Þá er best að leyfa einu myndbandi að fljóta hér með. Munið að smella á tannhjólið neðst til hægri og velja þar 720p HD. Betri myndgæði.

Hér sést vel hversu smá við erum í þessum heimi.


11 ágúst 2014

Oddsskarð, fjórði catituli.

Í dag eru þrjár vikur liðnar síðan ég fór upp í Oddsskarð seinast.
Einfaldast er að lýsa aðstæðum svo:
Mjög mikinn snjó hefur tekið upp og er því ekki langt að bíða þess að vegurinn verði fær.
Enn er hann sem sagt ófær bílum. Líklega væri hægt að böðlast upp í skarðiðeftir veginum sunnan frá.
Þar lítur vegurinn svona út














Fyrir þremur vikum leit samu kafli svona út (hér að neðan)





















Til askoða fleiri myndir er hægt að smella hér.

Eftir að hafa farið þessa leið var alveg upplagt að skreppa upp á Þórdalsheiði yfir í Skriðdal. Heiman úr hlaði yfir á þjóðveg 1 í Skriðdal eru um 25 km.




















Hér má sjá leiðina, hæð, hraða og fleira.
https://plus.google.com/101144062600590994864/posts/aq8nhHmn9Se


21 júlí 2014

Snjóalög í Oddsskarði, þriðji capituli

Nú, 6 dögum eftir að annar capituli var skrifaður og myndaður, fór ég aftur upp í Oddsskarð til að athuga með snjóalög og færð.
Skemmst er frá því að segja að töluvert margir dagar er í að fært verði þarna yfir, nema að Ari láti moka leiðina sem mér þykir harla ólíklegt.
En eitthvað hefur þó bráðnað af snjó þarna uppfrá.
Látum myndirnar tala.

Tvær efstu myndirnar eru teknar 16. júlí 2014.


 Þessar tvær neðri eru teknar í dag, 21. júlí 2014.
Það er ekki mikill munur á en þó einhver.


Reyndar er orðið ágætlega fært fyrir fjórhjól upp í skarð að norðan verðu.
Það nýtti ég mér og skellti mér uppeftir og tók nokkrar myndir yfir dali og firði.
Einnig af tröllabarnaskólanum í Oddsskarði sem er hér til hliðar.

Fleiri myndir má skoða með því að smella hér.

16 júlí 2014

Snjóalög í Oddsskarði annar capituli.

Það var seinnipart dags nú í dag að ég skutlaðist á fjórhjóli mínu upp í Oddsskarð aftur.
Tilgangur þessarar ferðar var að kanna snjóalög í Oddsskarði og í þetta sinn að sunnanverðu því ekki var tími til þess í fyrri ferðinni.
Niðurstaðan er að enn síður er fært um gamla Oddsskarði veginn að sunnanverðu sökum snjóa.
Oddsskarðsgöngin er þó enn fær öllum ökutækjum.
Fyrir þá sem fýsir í göngutúr um fjalllendi Fjarðabyggðar þá er göngutúr á Svartafjall gríðarlega skemmtileg dægradvöl.



14 júlí 2014

Snjóalög í Odsskarði

Stuttur vísandarúntur var tekinn seinnipartinn í dag á Polla. Ekið var upp í Oddsskarð og snjóalög athuguð.


Eins og sést á myndunum þá er töluvert í að gamli vegurinn um Oddsskarð verði fær sökum snjóa. En göngin eru enn fær öllum gerðum farartækja.












Ef einhver veit hvað þetta er þá má skrifa komment hér að neðan.
Þessi brunnur, eða hvað ætti svo sem að kalla þetta er við gömlu leiðina upp frá Eskifirði.
Hvað þetta er hef ég ekki höggmynd um.















Fleiri myndir má sjá hér.

14 júní 2014

Stutt Vattarnesferð

Jú, það kom að því.
Ég er sem sagt loksins kominn á fjórhjól, sem er í minni eigu :)
Þetta er Polaris Sportsman 800 árgerð 2007, ekið um 7000 km.
Þetta er ljúft.

Ég hef nú þegar farið eina ferð yfir í Vöðlavík, en á eftir að fara þangað aftur, og aftur með reyndari mönnum og konum til að skoða og fá sögurnar.
Í dag skrapp ég svo í stutta ferð út á Vattarnes.
Hér eru svo nokkrar myndir frá Vattarnesi.















Fleiri myndir má svo sjá með því að skoða myndaalbúmið mitt.



Ég er að vinna í samsetningu á stuttu myndskeiði frá Vattarnesrúntinum. En á meðan beðið er eftir því er hér kynningarmyndband :-)





Nú er myndskeiðið tilbúið. Vessgú.